Turks og Caicos

Á laugardaginn hitti ég í fyrsta skipti mann sem búsettur er á þeim merka stað Turks og Caicos í Karíbahafi, það þótti mér fróðlegt. Hann er reyndar Kanadamaður blessaður en lætur fara vel um sig í sólinni þarna suðurfrá. Af forvitni spurði ég hann hvað hann væri að bralla þarna og fékk þau svör að hann synti í sjónum, spilaði golf og léti fara vel um sig. Í kjölfarið spurði ég hann hvað hann gerði sér til lífsviðurværis. Kom þá í ljós að hann gerir fátt annað en synda í sjónum og spila golf. Þetta kallast hið ljúfa líf.

Á mánudaginn fer ég til Póllands í annað sinn á ævinni. Það eru ekki mörg lönd sem ég hef heimsótt oftar en það. Í ferðinni mun ég einnig heimsækja þriðju fangabúðir/útrýmingarbúðir nasista en að þessu sinni er það Auschwitz. Áður hef ég heimsótt Sachsenhausen og Stutthof, áhugaverðir staðir báðir tveir.


Óli Njáll hinn menningarsinnaði

Rétt í þessu gerðust þau undur og stórmerki að Óli Njáll Ingólfsson keypti sér 2 miða í óperuna á La Traviata eftir Verdi. Sunnu verður því boðið á hámenningarlegt deit þann 20. febrúar. Já, svona leyni ég nú á mér.

Svo er ég að hugsa um að kaupa mér nýjan bíl, focusinn minn er versti vetrarbíll sem ég hef kynnst og þarf að fara.


Nemendamót

Í kvöld fór kallinn og slafraði í sig kalkún og nautasteik með þeim ágæta bekk 4A. Það heppnaðist ágætlega og ekki var verra að besti stóri bróðir í heimi sá um að skutla mér og sækja mig. Nemendamót eru fín, samt er eitthvað skrítið við að mæta í partý með krökkum fæddum 1990.

 


sorg og gleði

Í kvöld tapaði Leiknir fyrir ír í Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu 0-2. Sem Leiknismaður græt ég þessi úrslit.

Sem samstarfsmaður fyllibyttunnar Vals Gunnarssonar gleðst ég hins vegar enda mun hann ekki eiga sjö dagana sæla í návist minni næstu vikuna.


Víkingur framtíðarinnar

Rúv sýndi þátt um Vestfjarðavíkinginn í kvöld. Það er kannski ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þar mátti sjá Val Ólason bregða fyrir þar sem hann var kallaður víkingur framtíðarinnar. Hann tók sig vel út á skjánum eins og við var að búast.


Geðveikur borgarstjóri, frábært

Enn undirstrikar Ólafur F. að hann er klikk. Nú finnst mér að Björn Ingi Hrafnsson eigi að koma í pontu og segja: "Það máttu vita Ólafur F. Magnússon að við söknum þín svo sannarlega ekki neitt!"


Íþróttagarpurinn

Sonur minn hóf nám í íþróttaskóla í morgun og byrjunin lofar góðu. Þetta er augljóslega upprennandi íþróttagarpur. Íþróttahæfileikar hans eru klárlega frá mér komnir enda hef ég mjög mikið af leyndum íþróttahæfileikum.

Lýst er eftir....

...manni sem hefur fundið kjöt í Bónus sem er ekki á tilboði. Ég hef aldrei fundið slíkan varning. Skemmtilegt hvernig reynt er að plata fólk í hverri viku með því að skella tilboðsmiða á varninginn. Samt ekki jafn kræft og flugeldasalar sem auglýstu flugelda á tilboði fyrir áramótin. (hvenær í ósköpunum voru þeir þá á venjulegu verði)


Um Gettu betur

Jæja, fyrsta keppni Gettu betur stendur nú yfir í útvarpinu. Ég get ekki annað en spurt: Hvaða endemis erkifífl fékk þá hugmynd að hafa bjölluspurningar í útvarpi? Þetta gerir ekkert annað en að búa til óhemjuleiðinlegar aftökur þar sem smálið eru hökkuð í spað af þrautæfðum höfuðborgarliðum. Ég mótmæli allur!!!

Áramótauppgjör

Flugeldar síðasta árs voru góðir, Gullborg stendur fyrir sínu að vanda.

Maturinn hjá mömmu var að vanda frábær.

Sonur minn stóð sig eins og hetja og vakti til tæplega 1.

Partý næturinnar voru góð.

Þynka nýársdags var minni en búist var við.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband