Boltablogg

Fór með karl föður mínum á völlinn í kvöld. Leiknir átti heimaleik við Fjarðabyggð sem hefur byrjað tímabilið mjög ólíkt okkur. Ekki breyttust hlutskipti liðana neitt í kvöld, Fjarðabyggð vann, við töpuðum. Þar með höfum við tapað 5 af fyrstu 7 leikjum tímabilsins. Ef Víkingur Ólafsvík væri ekki svona skelfilegt lið þá værum við í fallsætinu.

Þetta tap í dag var hins vegar ólíkt hinum 3 sem ég hef horft upp á þetta sumarið sanngjarnt. Við vorum lélegir, latir og að vanda gerðum við afdrifarík varnarmistök sem kostuðu mark. Þessi leikur var líka með eindæmum leiðinlegur. Það eru lið eins og Fjarðabyggð sem gera marka fráhverfa íslenskum fótbolta. Ógeðslegt varnarlið sem spilar tuddabolta dauðans. Þetta heitir á fínu máli árangursríkur fótbolti. Á köflum líktist spil þeirra einna helst bróður mínum í innanhúsbolta!!!

Vandamál Leiknis þetta sumarið er endalaus klaufamistök í vörninni, óheppnir senterar og umfram allt sár skortur á miðjumanni sem getur stjórnað leiknum og skapað eitthvað. Þetta þarf svo sem ekki að koma á óvart, misstum 5 lykilmenn úr liðinu frá því í fyrra og fengum aðeins einn nothæfan í staðinn.

Af hverju er ég að skrifa þetta? það nennir ekki nokkur lesandi að lesa heilt blogg um 1. deildarfótbolta.....


Geisladiskur ársins

Um helgina fann ég í geisladiskasafni Rásar 2 í stúdíói 1 disk sem bar nafnið "Meiri niðurgangur".

Það er skrítið nafn

Við nánari athugun reyndist diskurinn alls ekki heita það.

gauragangur var það víst


Áfengislaust í Chania

Krítverska fréttablaðið Zorba greinir frá því á forsíðu í dag að áfengissala í hafnarborginni Chania hafi verið með mesta móti fyrri part Júnímánaðar. Talið er að ein hjón frá fjarlægu landi séu að mestu ábyrg fyrir þessari miklu sölu. Að sögn lögreglu var þetta ákveðna par áberandi fyrir mikla drykkju og óspekktir í miðbæ borgarinnar að næturlagi, m.a. hafi það ítrekað ásakað barþjóna um að snuða sig um alkóhólið í drykkina. Lögreglustjóri borgarinnar segir sjaldgæft að ferðamenn hagi sér svona og flestir gestir borgarinnar séu hæglætisfólk. Hann muni þó eftir tveimur svipuðum tilfellum fyrir nokkrum árum.


Vaktatörn að ljúka

Síðasta næturvaktin í þessari törn í gangi og svo tvær vikur í frí. Eins gott og það er nú að fá aukapeninginn fyrir sumarvinnuna þá er ljúfara að vera í fríi. Við Sunna og Valur erum að velta því fyrir okkur að skella okkur á vestfjarðavíking eftir rúma viku. Krúsa um vestfirðina, skoða kraftakalla og skemmta okkur hið besta. Ég mun þá vitanlega þykjast vera voða mikill Vestfirðingur og dásama þessi skítapleis þar sem forfeður mínir lifðu og hrærðust.

Framarar unnu sinn fyrsta leik í Landsbankadeildinni í kvöld. Því ber að fagna því sem verðandi Grafarholtsbúi er ég að magna upp í mér Framarann. Framarar eru reyndar með ömurlegt lið í sumar og ekki rétt að fagna of mikið þótt einn sigur náist í hús. Það mun þó sennilega bjarga Frömurum hvað kr-ingar eru mikið s****lið, og jafnvel þótt kr nái sér á strik þá er hk alveg hrikalega lélegt líka og gæti vel tekið fallsætið.


Hæhójibbíjey

17. júní er í dag. Það verður væntanlega lítill hátíðisdagur á mínu heimili, kúturinn minn er ekkert að hrista af sér þessa flensu og búinn að vera með 40 stiga hita í 3 daga. Það verður því ekkert bæjarráp á honum. Hann fær samt smá 17. júní fíling því móðir hans keypti risastóra blöðru af Bubba Byggi í dag. Lítill maður var ekki ósáttur við það.
Til að auka á þjóðhátíðareymd Vals þá er pabbi hans á næturvöktum og þarf því að sofa stóran part af þjóðhátíðardeginum og mamma hans á kvöldvakt. Þetta er aumt hlutskipti fyrir strákinn.

Í gær hélt fólk áfram að streyma inn á Kaplaskjólsveginn. Varð þar umferðaröngþveiti mikið enda hefur bróðir minn ekki verið að standa sig í því að stýra umferð um götuna. Önnur heimsóknin var 5 manna sendinefnd, þ.e. par sem var að koma í annað sinn og tók feður og önnur skyldmenni með. Það er góðs viti. Kannski losna ég við hreysið í vikunni.

 


Undur lífsins

Hefur einhver annar en ég velt fyrir sér strikinu sem rúllar fram og til baka á stillimynd Sjónvarpsins?


Lítill kútur veikur

Þá er litli kúturinn minn lasinn, með 40 stiga hita og vill ekki einu sinni borða súkkulaði né drekka kók. Hann verður að hrista þetta af sér fyrir 17. júní þannig að við getum farið og fengið stóra blöðru.

Enn hefur ekki borist tilboð í íbúðina mína, það hlýtur að skila sér eftir helgi.


Eftirsótt íbúð

Tveir búnir að hringja strax á fyrsta degi, einn kom að skoða í dag, annar væntanlegur á morgun. Ég lifi í voninni um að þessu ljúki fljótt af. Ég nenni ekki að hafa þetta á sölu lengi.

Þannig að ef þú lesandi góður hefur áhuga á íbúðinni minni er betra að hafa hraðar hendur.

Annars þætti mér eðlilegt að bróðir minn keypti þetta af mér, það er bara sanngjarnt fyrst ég kaupi hans íbúð.


Samsæri

í dag varð slys á aðallestarstöðinni í Köben þar sem rafmagnskaplar féllu á 7 SÆNSKA skólakrakka. Ég myndi segja að þar með hefðu Danir hefnt fyrir ósigurinn á Parken um daginn.


hólímólí

Bra!!! Fasteignasalinn ætlar að koma á morgun og verðmeta og taka myndir, láta mig skrifa formlega undir kauptilboð og sitthvað fleira. Þetta gerist hratt, og íbúðin er alls ekkert hæf til myndatöku sem stendur. Kallinn neyðist til að taka til fram á nótt, það er ekki skemmtileg tilhugsun.

En að öðrum málum, í dag hljóp ég 6 kílómetra í ræktinni. Allan tímann fannst mér lítill púki á öxlinni hvísla:  "hlauptu hlunkur, hlauptu!"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband