Múrinn er fallinn

Þá er múrinn formlega allur. Í mínum huga hefur hann verið dauður lengi eða allt frá því að sérvitringslegu pistlarnir í Menning og þó voru teknir af dagskrá. Af þeim báru Sögubrot af Tyrkjum vitanlega af.


Um málfar í fjölmiðlum

Það er ávallt gaman að hlusta á fréttir, einkum illa unnar fréttir. Hér er brot úr frétt sem birtist í ónefndum miðli í dag.

"hann var ekki í gangi bíllinn" og "drengurinn fór í skoðun á sjúkrahúsi og varð ekki meint af".

Já, ég er nörd en ég skellihló þegar ég heyrði þetta.


Síðasti dagurinn

Í dag er síðasti dagurinn hjá litla manninum á Sólgarði og á morgun hefst aðlögun á Vesturborg. Ég hef aðeins reynt að spjalla við Val um þetta en held að hann skilji þetta ekki. Eitt er þó víst að við feðgar eigum eftir að sakna Ingu deildarstjóra alveg ægilega mikið, ég vil helst bjóða þeirri konu vinnu á Vesturborg.

Álvinir

Í dag hváði ég þegar þulur gömlu gufunnar las auglýsingar. "Takið vel á móti álvinum". Hér var víst reyndar ekki verið að tala um álvini heldur átti þetta að vera SÁÁ álfurinn. Ekki mun þó standa á mér að taka vel á móti álvinum.


Hvítasunna

Nafnið hvítasunnudagur er klárlega tilkomið sökum þess að Sunna lét lita á sér hárið, það er ansi ljóst í dag.

Ný stjórn

Hin nýja ríkisstjórn Íslands vill bæta hag barna, aldraðra, öryrkja. Stuðla að öflugu atvinnulífi og bættum samgöngum.

Ætli einhver ríkisstjórn hafi ekki haft þessi mál á dagskrá?


Kraftakrikket

Í gær var ég í miklum ham sem batsmaður á æfingu og afrekaði það að brjóta kylfu. Maður er klárlega að spila kraftakrikket þegar maður gerir það.

Pétur allur

Pétur þulur borinn til grafar í dag. Þar var skemmtilegur maður, lenti í því að svara tveimur eða þremur símtölum frá kallinum þegar ég var á fréttastofunni. Hann hafði margt fram að færa .

Minningargrein Páls Magnússonar um kallinn er sérstök. Í stuttu máli hljóðar hún svona. "Pétur var nöldurseggur sem hafði ekkert betra við tímann að gera en að hringja í fólk og röfla út af smámunum. Ríkisútvarpið þakkar honum góð störf."

Eftir að ég fór að kaupa moggann er ég aftur byrjaður að lesa minningargreinar. Ætli það þýði ekki að ég sé að verða gamall.

 


nískir kratar

Kratar bönkuðu upp á í kvöld og gáfu mér eina rauða rós. Ef þeir hefðu gefið mér 18 rauðar rósir hefði ég kosið þá.

Stalkerar

Í dag hafa 12 komið á þessa síðu. Einn vinur minn hefur uppgötvað hana frá því hún var stofnuð. Þetta er stórfurðulegt. Ég segi engum frá þessari síðu. Hefur fólk ekkert við tíma sinn að gera.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband