morgunstund gefur gull í mund

Í samningaviðræðum áðan gaf ég eftir eina dag vikunnar þar sem ég átti ekki að hefja störf klukkan 8. Það er svo sem ekki mikil fórn enda vaknar Valur nokkur Ólason ávallt vel fyrir þann tíma þannig að ekki voru líkur á að ég gæti sofið út. Spurningin núna er hins vegar, hvaðan losna þeir tímar úr töflunni sem færast á miðvikudagsmorguninn.

Draumur í dós...

.... eða öllu heldur Óli Njáll í dós. Prófaði Toyota Aygo áðan ásamt minni fögru sambýliskonu. Það er skemmtilega lítill bíll og kostar heldur ekki mikið, eyðir litlu sem engu og svo þarf aldrei að borga í stöðumæli. Já, ég er eiginlega bara á því að kaupa eitt stykki á næstu dögum.

Móðir mín mun nú eflaust dæsa og segja þetta blikkdollu hina verstu.


NR. 10

Það er alveg deginum ljósara hver verður maðurinn á bakinu á næstu Liverpooltreyju. Andry Voronin er maðurinn. Nýja kommentavini mínum Sigurði Eðvaldssyni til mikillar gleði þá get ég tilkynnt að það er einkum vegna útlits sem Voronin er valinn:)

 

 


Bakið hélt

Þar sem bak mitt hefur verið með skárra móti undanfarna daga var ekki úr vegi að láta reyna á það ogg skella sér í fótbolta. Og það hélt furðuvel, dálítið stirður og viðkvæmur í byrjun en svo skánaði þetta allt. Úthald kallsins var hins vegar með versta móti og ljóst að á morgun verður haldið í ræktina og bætt úr því. Nú skulu kíló fjúka, þol batna og fegurð mín magnast í réttu hlutfalli við það þó varla sé nú á hana bætandi.

Í fréttum er annars helst að ég er búinn, hættur og farinn af útvarpinu. Þykir ólíklegt að ég snúi þangað aftur næsta sumar, allavega ekki á næturvaktir. Kannski ef maður kæmist í íþróttirnar eða eitthvað annað skemmtilegt myndi maður íhuga það.

Í vinnunni í dag ræddi ég samsæriskenningar við vel valda aðila. Ljóst er að mörgum spurningum er ósvarað um skyndilegt brotthvarf Sölva Sveinssonar úr starfi skólastjóra um mitt sumar. Held að skólanefnd þurfi að koma fram og útskýra þetta mál betur og segja sannleikann um þetta mál.  Það er held ég ekki gott fyrir nýjan skólastjóra að hafa einhverjar sögusagnir flögrandi um húsið.

 


DV tapar sér í ruglinu

Á baksíðu DV er heljarstór frétt um hið ógurlega og skelfilega athæfi ölgerðar Egils Skallagrímssonar að styrkja nýnemapartý nemenda við Háskólann í Reykjavík. Keyrir svo endanlega um þverbak þar sem birt er viðtal við kall hjá lýðheilsustöð sem talar um þetta sem glæp og lögreglumál.

Á hvaða lyfjum eru þessir menn? Augljóslega er þarna blaðamaður sem ekki hefur getað klárað stúdentsprófið sitt og því aldrei kynnst skemmtanalífi háskólanema sem árum saman hefur gengið út á að fyrirtæki gefi háskólanemum bjór.

Og hvað í andskotanum getur verið slæmt við þetta? Nemendur fá ókeypis bjór, þeir sáttir. Fyrirtækið fær ódýra auglýsingu, þeir sáttir. Bjór var síðast þegar ég athugaði lögleg neysluvara á Íslandi þannig að ekki skil ég glæpinn í sem í þessu er fólginn. Vitaskuld getur einhver unglingur slæðst með í partýið en er ekki full mikil vitleysa að tala um glæpastarfsemi af því að hugsanlega, mögulega, kannski fær einn krakki undir aldri sér bjór?

Áfengisfasismi er versti fasisminn af þeim öllum.


Tvískipt vinnuvika

Í kvöld sá ég stundatöflu verðandi haustannar í skólanum og kættist karlinn nokkuð. Hún er góð og fá Þórður og Svava mínar bestu þakkir fyrir gott starf. Í stuttum dráttum er vinnuvikan tvískipt. Á mánudögum og þriðjudögum vinn ég 7-8 stundir og svipaða sögu er að segja af fimmtudögum og föstudögum. Á miðvikudögum eru hins vegar einungis 3 kennslustundir fyrir hádegi. Þetta er afar vel þegið enda gefst með þessu tími til að vinna mikið af undirbúningsvinnunni á miðvikudögum. Þannig að á sunnudögum get ég undirbúið kennslu fyrri hluta vikunnar og á miðvikudögum síðari hlutann. Flott mál og þetta leggst vel í mig.

En mikið afskaplega væri nú sniðugt ef ég væri byrjaður að undirbúa nýju áfangana mína að einhverju leyti, síðustu dagarnir áður en kennsla hefst verða ansi strembnir:(


Nokkrar hugleiðingar um fótboltaleik

Ég leyfi mér að efast um að Patrice Evra hefði fengið rautt spjald ef hann hefði tæklað Dave Kitson út við hliðarlínu í leik Manutd og Reding í dag (gær).

Eiginlega stórmerkilegt að dómarinn skyldi ekki gefa united eins og eina vítaspyrnu þegar augljóst var að þeir gátu ekki klárað leikinn sjálfir. Þáð ráð hefur oft dugað vel á old trafford.

Sú hugmynd að setja John O'Shea í sóknina er stórkostlega fyndin.

Þessi bein í Wayne Rooney eru alveg ógurlega brothætt.

Nani er ólíkt ljótari en Ronaldo. Hann virðist líka mun lélegri í fótbolta. Hann getur þó verið sáttur að Carlos Tevez er með honum í liði því sá er alltaf ljótasti maðurinn í liðinu.

 


Nýjan bíl

Nú held ég að fífí góða sé loks að gefa upp öndina. Pústið er endanlega farið undan bílnum og drynur nú í honum líkt og öldruðum skriðdreka. Nokkuð ljóst má vera að bíllinn er ekki á vetur setjandi með ónýtan kaldræsibúnað (sem er eitthvað tölvudraslsmasl sem kostar skrilljón að laga) og pústlaus. Ýmislegt fleira svo sem farið að slappast í honum og þá er það erfiður skapgerðarbrestur í bílnum að vilja helst ekki hleypa manni inn í frosti. Sjálfur hafði ég vonast eftir nokkrum mánuðum með fífí til viðbótar en held bara að það gangi ekki. Sunna fagnar því ógurlega enda verður hún seint kallaður stærsti aðdáandi fífí.

En hvað á maður að kaupa í staðinn. Það er spurning og ljóst að ég þarf að fara skoða smábíla af ýmsum gerðum næstu vikurnar. Kröfurnar eru að bíllinn sé 5 dyra, sparneytinn, auðvelt sé að skella Val í aftursætið, bíllinn sé ódýr  og ... já það eru víst ekki fleiri kröfur. Ég er alveg til í að skrölta á bíl með 1000cc vél. (ég er svo umhverfisvænn, muhahaha). Það sem ég ætla að skoða er allavega Toyota Yaris og Aygo, VW Polo, Citroen C1. Já, ætli við byrjum ekki á þessu og sjáum svo til.

Ábendingar vel þegnar í kommentakerfi.

Vitaskuld væri draumurinn að fá sér góðan Volvo en af því verður ekki að þessu sinni.


Ógurlega fyndið

HJÓN M/ 1 BARN

Matur og hreinl.

64.900

Fatakaup

9.800

Lækniskostnaður

9.200

Tómstundir

4.600

Ýmislegt

4.600

SAMTALS

93.100

Hér má sjá upplýsingar um framfærslukostnað hjóna með eitt barn. Upplýsingarnar fengnar af fjölskylduvef hins opinbera. www.fjolskylda.is
Þetta er ekkert voðalega líkt útgjöldum fjölskyldunnar á Kapló51, það er kannski af því við Sunna erum ekki hjón. Ef við giftum okkur verðum við kannski svona ógurlega matgrönn.

úff

Það er eitthvað hálf komískt og um leið grátlegt við það þegar nemandi sendir manni bréf rétt fyrir lok námskeiðs og skilur ekkert í því að ég, kennarinn, sé að reka á eftir nemendum að skila ritgerð og verkefnabók.

Umrædd verkefni og ritgerð gilda víst 80% af einkunn:(


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband