5.8.2007 | 20:55
Launaleyndin og stuttbuxnastrákarnir
Ekki brást það í ár fremur en endranær að allir fjölmiðlar landsins kepptust við að taka viðtöl við leiðtoga fámenns hóps mótmælenda sem er illa við birtingu gagna um skattgreiðslur fólks. Af umfjöllum fjölmiðla á ári hverju mætti halda að þarna væri gríðarlega stór þrýstihópur á ferðinni, staðreyndin er þó sú að þarna eru iðulega um 10 manns. Oft hef ég tekið þátt í mun fjölmennari mótmælum gegn ýmsum hlutum sem eru mun mikilvægari en upphæðir á blaði, oftast nær stríði og ámóta djöfulgangi. Slík mótmæli hafa iðulega fengið mun minni (og jafnvel næstum enga) umfjöllun í fjölmiðlun. Mér finnst þetta sýna ágætlega siðferðiskennd íslensku þjóðarinnar, peningar ofar öllu.
En birting opinberra gjalda einstaklinga er hið besta mál. Þetta er sjálfsagður hlutur að mínu mati. Þarna getur fólk komið og athugað hvað fólk í sambærilegum störfum hefur í tekjur, það er mjög mikilvægt á tímum launaleyndar, einkum fyrir konur enda sýna dæmin að þær bera oft skarðan hlut frá borði í voru frjálsa og yndislega kapítalíska samfélagi. Í annan stað má nefna að þarna geta borgararnir fylgst með náunganum ef þeir gruna hann um eitthvað misjafnt og tilkynnt það. Þessu hafa ýmsir viljað tengja Stasi njósnum á tímum Austur Þýskalands. Slíkt tal er gróf vanvirðing við það fólk sem varð fyrir barðinu á Stasi. Svo fáránleg er samlíkingin að hún er ekki svaraverð.
Um skattgreiðslur mínar mega allir vita. Þær voru samkvæmt álagningarseðlinum góða, 1.443.275 krónur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.