22.10.2007 | 23:24
Bloggað úr Kjósarsýslu
Af mér: Jahá, ég er fluttur upp í sveit. Maríubaugur 123, góðan daginn, hér kem ég. Vetrarfríið í vinnunni fór allt í flutninga og tilfallandi leiðindi en þetta er komið. Hér sit ég í Grafarholtinu og blogga innan um kassa sem ég á eftir að tína upp úr. Það verður nú einhver bið á því að hér verði allt komið í samt lag, því er nú verr og miður. Afleiðingar af þessu öllu eru að bakið á mér er gersamlega ónýtt. Ég neyðist til að fara í ræktina að gera æfingar. Sennilega væri sniðugt að hvíla sig um stund á fótbolta en kommon, allt hefur sín takmörk.
Af öðrum fjölskyldumeðlimum: Sunna hefur nú loksins fengið sjónvarp í svefnherbergið og getur nú sofnað út frá Leiðarljósi eða ámóta efni. Miklu fargi er af henni létt. Valur er búinn að fá stórt og gott herbergi í staðinn fyrir gömlu holuna. Hann er líka búinn að fá alvöru rúm í stað rimlarúms. Hann fagnaði því með því að detta út úr því fyrsta daginn, reka hausinn í ofninn á leiðinni og fá marblett á ennið. En hann er sterkur strákur og harkar þetta af sér. Nöldurseggjum skal bent á að það hefði ekkert þýtt að hafa dýnu á gólfinu, ég hefði þurft að klæða ofninn með svampi til að koma í veg fyrir þetta.
Af fótbolta: Liverpool vann Everton. Fagna því allir góðir menn. Menn tala um dómaraskandal, það er bull og vitleysa. Ég lesandi góður hef dómarapróf, þú ekki og því hef ég rétt fyrir mér. (reyndar horfði ég ekki á leikinn en það er aukaatriði). Leiknir er ennþá þjálfaralaus og veldur það mér nokkrum áhyggjum. Ég vil sjá nokkrar tilkynningar á næstu dögum: 1) Garðar G. Ásgeirsson verði ráðinn þjálfari. 2) Pétur Svansson, kantmaðurinn knái, snúi heim. 3) Jeton Gorgaj geri slíkt hið sama.
Nóg í bili. Meira verður bloggað næstu daga.
Athugasemdir
Hjartanlega til hamingju með flutningana :)
Eva (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 23:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.