Heimskuleg spurning

Í dag spilar Liverpool við Mancester City. Ok, svo sem ekkert merkilegt við það. En í gær spurði ég bróður minn hvort um væri að ræða heima eða útileik.

Í ljósi þess að við feðgar erum búnir að panta okkur miða á leik Liverpool og Mancester City á Anfield í maí þá var þessi spurning alveg óheyrilega heimskuleg.


andlitsbókin og sitt hvað fleira

Þá hef ég náð að safna á þriðja tug vina á facebook. Það er nauðsynlegt að hækka þessa tölu svo að ég líti ekki illa út. Allt í vinnslu.

Af bandarískum íþróttum er það helst að frétta að Andrew Bynum er maðurinn í borg englanna. Það vantar ekki mikið í viðbót til að Lakers geti barist um titla ef þessi maður heldur áfram að bæta sig. 20 ára og orðinn skrímsli, djöfull er ég sáttur. Úr heimi NFL er að frétta að mínir menn í 49'ers eru ömurlegir, ó já og þar eru fá jákvæð merki til að auka manni bjartsýni.

Fólk er þessa dagana að kjósa mann ársins á rás 2. Í guðanna bænum ekki kjósa fólk sem hefur það sér helst til ágætis að vera veikt af hinum og þessum sjúkdómum og bloggar um það. Ég hef samúð meö öllum slíkum en komm on, maður er ekki maður ársins fyrir það að díla við eigin veikindi.

Ef keypt er sjónvarp í BT fær maður fjölskyldupakka af flugeldum með. Ég var víst fyrir löngu búinn að lofa Sunnu flatskjá í svefnherbergið, best að rumpa því af fyrir áramót.


Hitt og þetta

Þá er kominn þriðji dagur jóla. Jólin hafa verið góð. En áramótin eru nú handan við hornið, það þýðir að það styttist í flugeldakaup. Það er ekki leiðinlegt.

Ég er núna kominn með facebook prófíl. Á það kann ég lítið en vantar fleiri vini. Að eiga 17 vini þar er bara vandræðalegt.

Jólatré í stofu stendur, stjörnuna (toppinn) glampar á, kertin standa á grænum greinum gul og rauð og blá. Þetta re því miður ekki alveg satt hér í Maríubaugnum því önnur serían á trénu er dauð, hún dó eftir að hafa verið sett einu sinni í samband. Tréð er því bara hálfupplýst.

Boltinn: Liverpool vann glæstan sigur á Derby um jólin, það er gaman. Barcelona tapaði fyrir Real Madrid. Við Espanyol menn fögnum því ógurlega.


Byttubloggg 2

Haha, nú á ég facebook dæmi. Ég kann ekki rassgat á það en ef þú vilt vera vinur minn skylst mér að þú eigir að hafa samband við mig á það dæmi.

Helvítis tækniöld, væri ekki betra að fá sendibréf í pósti? 


byttublogg

Það er bara eitthvað súrrealískt við það að sitja heima hjá sér um klukkan 23:00, sauðdrukkinn við tölvuna.

En í kvöld var sumsé jólafögnuður VÍ kennara. Það var hið fínasta partý, spjallaði við marga og hafði það gott. Fórum að lokum í bæinn þar sem nemendur báru í okkur áfengi. Eftir nokkra drykki fóru þeir nemendur að veiða upp úr mér upplýsingar. Ég held ég hafi varist fimlega en miðað við ástand mitt er alls ekki víst að það hafi tekist.

Maður kvöldsins: Úff, margir tilkallaðir. Valur Gunnarsson, sem ég úthúðaði sem kerlingu í brjóstahaldarastærð 34 B um daginn reyndist nýtur í drykkjunni og gerir tilkall til titilsins en hann var einn af 5 sem fóru með mér í bæinn. Benedikt efnafræðingur einhversson gerir líka tilkall fyrir að fara heim snemma, EN kom aftur tvíefldur. En sennilega er aðalmanneskja kvöldsins Hafdís Björk Jónsdóttir Sirrýardóttir sem skutlaði mér heim að lokum og sparaði mér fúlgur fjár í bílakostnað. Það er eflaust skugalega dýrt að taka taxa heim í Grafarholtið en á það hef ég ekki látið reyna enn þá. 

En hvað helvítis kjaftæði er þetta. Maður kvöldsins er klárlega Valur Ólason sem svaf vært á sínu græna eyra þegar ég kom heim, sorrý þið hin þið eigið bara ekki séns. Hann er langflottastur. 


Puta Barca!

Hey, já, ég á bloggsíðu, best að blogga smá. Var í Barcelona á dögunum með Sunnu. Á meðan var Valur settur í vist hjá ömmu og afa. Barcelona er skemmtileg borg og ferðin í alla staði vel heppnuð. Helst stendur vitaksuld upp úr heimsókn á Ólympíuleikvanginn á leik Espanyol og Barcelona. Á leiðinni á leikinn ákvað ég að gerast stuðningsmaður Espanyol, keypti mér treyju á vellinum og gólaði með stuðningsmönnum allan leikinn auk þess að öskra "hlauptu hlunkur" í hvert skipti sem Eiður Smári fékk boltann. Helsta hróp stuðningsmanna Espanyol er ekki flókið, "Puta Barca, Puta Barca, hei! hei!" Puta ku víst þýða hóra þannig að ekki eru þeir sérlega kurteisir. En þær fáu Barcapútur sem voru á leiknum kunnu þó að svara fyrir sig, þær köstu flugeldum í hausinn á áhorfendum sem sátu nálægt þeim. Kannski maður taki þetta upp á Leiknisvellinum næsta sumar.

Parc Guell eða Gaudi garðurinn er annar skemmtilegur staður. Þar eyddum við Sunna góðum eftirmiðdegi, gengum um garðinn og fengum okkur ís. Þetta er með flottari almenningsgörðum sem ég hef séð. Nei, þetta er sá flottasti en djöfull hefur herra Gaudi verið klikkaður.

Þessa dagana hef ég nóg að gera við að fara yfir ritgerðir og próf. Mikið verð ég glaður þegar því lýkur.


Augljós lausn

Alræðissinnaðir burgeisaflokkarnir reyna nú að takmarka málfrelsið og setja hömlur á ræðutíma þingmanna með nýju frumvarpi um þingsköp. Mér finnst nú alveg tilheyra að berjast gegn því með góðu málþófi.


Tóbakið á þrotum

Tóbaksbaukurinn minn er nærri tómur núna. Ef einhver vill selja mér gott sænskt snus í pokum má hann hafa samband.

Smith fallinn frá

Sá (ágæti) maður Ian Smith, fyrrum forseti Rhódesíu er fallin frá. Það er ekki mikil sorgarfregn fyrir íbúa Simbabve enda fór hann ekkert voðalega vel með þegna sína. Sjálfur var hann rasisti sem kúgaði svartan meirihluta þjóðarinnar í valdatíð sinni. Smith má þó eiga það að kjör landsmanna, líka þeirra svörtu, voru miklum mun betri í stjórnartíð hans en þau eru nú enda hefur Robert Mugabe gersamlega tekist að rústa öllum innviðum samfélagsins með heimsku og spillingu.

Ég vil að Simbabve taki aftur upp nafnið Rhódesía og höfuðborgin verði aftur kölluð Salisbury. Umfram allt vil ég þó að krikketmenning þjóðarinnar rísi aftur upp en hún hefur verið á miklu undanhaldi síðustu árin og árangur landsliðsins skelfilegur.


Um greiðsluvanda ungs fólks

Mikið er vælt yfir hversu erfitt það er fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð nú til dags. Hvaða röfl er þetta? Fólk þarf bara að læra að spara. Það er ekki lífsnauðsyn að aka um á nýjum dýrum bílum, skella sér reglulegag á sólarströnd og éta steikur í hvert mál. Kaupið minni íbúð, farið í strætó, takið slátur, lærið að prjóna og hættið að væla!

Vandamálið nútímans er einfalt: Fólk er fífl!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband