Færsluflokkur: Bloggar

Sveitaóðalið

Kíkti í fyrsta sinn á sveitaóðal bróður míns, bærinn er hinn glæsilegasti þótt sitt hvað eigi nú eftir að fullklára. Mikið afskaplega verður þó gaman hjá bróður mínum að skipta um ljósaperur í stofunni í 4-5 metra hæð.  Ég kíkti nú ekkert á útihús að þessu sinni en túnin virðast ágæt og henta vel fyrir nokkurn frístundabúskap. Agnes frænka mín hefur einmitt tjáð mér hversu blómlegur kúabúskapur er þarna í Gvendargeislanum og býst ég því við að bróðir minn kaupi sér nokkrar kusur fyrir næsta sumar.


Veikindi og pólitík

Valur tók upp á því að veikjast um helgina, greip einhverja flensu á laugardaginn og hefur ekki enn losað sig við hana. Því sitjum við feðgar hér heima og horfum á sjónvarpið saman. Valur er eitthvað lítill í sér, vill ekkert borða og vill helst að pabbi sitji hjá sér og horfi á fiskana. Hann hristir þetta vonandi af sér í dag, þol mitt gagnvart fisknum nemó er nefnilega farið að minnka.

Um 70% þjóðarinnar styðja ríkisstjórnina samkvæmt nýjustu skoðanakönnun. Það er eflaust stjórnarflokkunum mikið gleðiefni enda styttist nú óðum í þingkosningar, ekki nema rétt rúmlega 3 og hálft ár þangað til.

Stjórnin hefur ákveðið að flytja sveitarómaga landsbyggðarinnar til borgarinnar með því að bjóða atvinnulausum flutningsstyrk. Þetta er vonandi fyrsta skrefið í því að leggja niður landsbyggðina og hina alræmdu byggðastefnu enda lítil þörf á henni þegar hyskið er allt komið í bæinn. 

Í dag ætla ég að reyna að pakka einhverju drasli í kassa, leysa verkefni fyrir háskólann og hafa samband við einhverja parketslípara. Ofan á þetta þarf að huga að litla kúti. Nóg að gera.


2 ára kútur

Litli maðurinn á heimilinu er orðinn tveggja ára. Voða stór. Við héldum míníammæli í dag bara fyrir okkur þrjú. Það þýddi að farið var út í bakarí og í kvöldmatinn var pizza. Held að allir hafi verið sáttir. Á laugardag verður hins vegar barnaafmæli, á sama tíma fellur Víkingur í fyrstu deild en KR heldur sér uppi.

Til heiðurs Birni Ólafssyni

Manchester United datt úr leik í Carling Cup gegn neðrideildarliði Coventry í kvöld og það á heimavelli. John O'Shea var í liði United í kvöld.


Víagra, rúv og sitthvað fleira

Fyrir þá sem ekki eru svo lánsamir að fá póst frá hinni opinberu heimasíðu Viagra vil ég benda á að í septembermánuði ku vera 74% afsláttur af bláu pillunum góðu. Þetta fyrirtæki virðist hafa litla trú á getu minni á þessu sviði og hefur sent mér póst um þetta tilboð þrívegis á síðustu viku.

Í dag hélt ég með nemendur mína á rúv í skoðunaferð, hún var ágæt.

Mér hefur borist til eyrna að Valur Gunnarsson hafi verið gerður að heiðursfélaga í KA-klúbbnum og fái frítt á öllum öldurhúsum norðan heiða næsta árið. Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það.

Í fótbolta áðan fauk í mig, það gerist einstaka sinnum en að þessu sinni fótbrotnaði enginn. Bróðir minn á hinn bóginn mætti í gulum aðskornum ermalausum spandexbol í boltann sem geirvörturnar skörtuðu sínu fegursta - í kjölfarið verður efast um kynhneigð hans næstu mánuðina.


grimmur einvaldur?

Mikið er það nú undarleg framkoma að bjóða manni í heimsókn til þess eins að ausa yfir hann fúkyrðum eins og þessi skólastjóri gerði við Ahmadinejad. Auk þess sem Ahmadinejad er alls enginn einvaldur heldur lýðræðislega kjörinn forseti Írans. Bandaríkjamönnum hættir þó til að kalla þjóðarleiðtoga illum nöfnum ef skoðanir þeirra eru ekki "réttar" í helstu málaflokkum.
mbl.is Fjandsamlegar móttökur virtust slá Ahmadinejad út af laginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Benitez að tapa því

Í fyrsta skipti frá því Rafael Benitez tók við Liverpool er ég farinn að efast um að hann geti unnið ensku deildina. Fyrir því er ein ástæða, maður geymir ekki Fernando Torres á bekknum ítrekað í erfiðum deildarleikjum gegn liðum sem vilja spila með marga menn í vörn. Í gær voru það Voronin og Kuyt saman, báðir flottir leikmenn en hvorugur er leikmaður sem skorar mörk upp á sitt einsdæmi. Til að vinna Birmingham og þeirra 10 manna vörn hefði Torres þurft að spila til að sprengja upp vörnina. Benitez er að tapa sér í róteringarvitleysunni og þar með möguleikanum á titlinum:(

Pétur og áfengisleysið

Áðan skrapp ég út í Bónus enda þarf maður víst að borða þrátt fyrir flensuna. Þar rakst ég á Pétur Árnason, þann öðlingspilt. Það sem markvert er við þennan fund er að þetta er aðeins í annað sinn er við hittumst báðir edrú. Hitt skiptið telur varla en þá hittumst við í vínbúðinni úti á nesi.

Í næstu viku lýkur átta vikna bindindi mínu, nánar tiltekið þriðjudaginn 25. september. Á því verður svo sannarlega ekki framhald.

Bókin við höndina nú er Að læra af sögu eftir Gunnar Karlsson. Seint verður Gunnar talinn skemmtilegur aflestrar.


Stríðinn strákur

Sonur minn Valur er skýr drengur, það verður ekki af honum tekið og heldur ekki að hann er nokkuð stríðinn drengur. Það kemur svo sem ekki á óvart enda móðir hans svipuð í þeim efnum. Nú er nokkuð liðið frá því Valur lærði nöfn foreldra sinna og veit hann vel að faðir hans heitir "olinall". Á síðustu vikum hefur drengurinn horft dálítið á Póstinn Pál og hefur í kjölfarið ákveðið að hætta að kalla föður sinn sínu rétta nafni og ef hann er spurður hvað pabbi heitir stendur sjaldnast á svari. Pabbi heitir "kötturinn Njáll"

AF mér er það hins vegar að frétta að ég gafst að lokum upp fyrir flensuskítnum og sit því heima í dag nemendum mínum eflaust til ómældrar gleði. Þetta hristist vonandi af mér um helgina.

Og The special One er hættur hjá CSKA London. Ég fagna því enda sannfærður um að Avram Grant sé ekki í sama klassa og möguleikar liðsins á afrekum því takmarkaðir.


Viðbót

Sigurinn á Stjörnunni þýðir það að Leiknir er öruggur með að halda sér uppi og því aukast stórum líkurnar á Leiknir - KR á Ghetto ground næsta sumar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband