Pönnukökukeppni

Mogginn fjallar um pönnukökukeppni landsmóts UMFÍ. Þetta er klárlega það flottasta við landsmótin, þessar skrítnu keppnisgreinar. Spurning hvort maður eigi ekki að fara undirbúa sig fyrir keppni í plöntugreiningu á næsta landsmóti

070707

Af hverju að gifta sig á þessum degi? Af hverju ekki að bíða eftir 111111? Það er óneitnalega mun meira kúl


Gaman að vera Leiknismaður

Það var sannarlega gaman að vera Leiknismaður á Ghettó-ground í gærkvöldi. Loksins uppskáru Leiknismenn eins og þeir sáðu. Hins vegar er það kannski ekki fréttnæmt að vinna KA enda lið þeirra arfalélegt. Sést kannski best á því að fyrir hvert mark sem KA hefur skorað í sumar þá hefur Jakob Spangsberg skorað tvö.


mbl.is Fjarðabyggð lagði Njarðvík - Enn eitt tap hjá KA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Selt

Jæja, þá er ég búin að selja Kaplaskjólsveginn. Það er ágætt að vera búinn að því.

Fasteignaþjónusta Brynjars fær þó engar þakkir, hún stóð sig engan veginn í sölunniAngry


Bölvað samsæri

Augljóst er að stjórnvöld í samstarfi við KB banka eru í herferð gegn hagsmunum mínum. Fyrst lækkar frú Jóhanna lánshlutfall Íbúðalánasjóðs og nú hækkar KB banki vextina á nýjum lánum. Allt þetta gerist á sama tíma og ég er að reyna selja íbúðina mína (þá í vesturbænum). Kallinn er ósáttur.

Á sama tíma er bakið á mér komið í bölvað ólag, held ég komist ekki lengur hjá því að kíkja til læknis. Þetta er ömurlegt ástand.


Ferðasagan heldur áfram

Á föstudaginn héldum við Vestfjarðareisunni áfram. Um morgun var keyrt inn í Selárdal í Arnarfirði og kíkt á verk Samúels Jónssonar en þarna hefur verið unnið gott starf síðustu árin við endurbætur. Skemmtilegt að skoða þetta en slæmt að ég var bara með 100 kall í klinki. Ég skulda safninu því einhverja hundraðkalla sem ég borga í næstu heimsókn. Velti fyrir mér að fara að Uppsölum en vegurinn inn dalinn virtist ekki upp á marga fiska. Held líka að þar sé fátt að skoða.

Eftir hádegi var farið að Hnjóti í Örlygshöfn. Þar skemmtum við okkur við að skoða muni úr fórum Gísla á Uppsölum og ýmislegt annað á byggðasafninu auk þess að skoða flugminjasafnið. Valur fann hins vegar kindur sem voru mun meira spennandi en gamlar flugvélar.

Enduðum reisuna á því að keyra til Breiðavíkur og í Hvallátur. Bæði afar fallegir staðir og vel þess virði að heimsækja. Ströndin í Breiðavík er sennilega sú fallegasta hér á landi. Liðnir atburðir á staðnum höfðu engin áhrif á mig enda er staðurinn meira áhugaverður fyrir vikið að mínu mati, ég skil ekki þá sem hafa afpantað gistingu þar vegna frétta af drengjaheimilinu og ofbeldinu þar.

Sunna var hálf dauð úr bílhræðslu eftir þennan dag, snarbrattar hlíðar í sjó fram er ekki hennar draumaútsýni.


2 íbúðir

Núna á ég 2 íbúðir, eina í hvorum enda bæjarins.  Það væri samt ágætt ef ég myndi losna við aðra innan fárra vikna.  Mér þykir ekkert gaman að skrifa undir kaupsamninga, sérstaklega er leiðinlegt að borga 2,1 milljón.  Bankareikningurinn er í sárum sem stendurCrying

Í dag nýtti fjölskyldan á Kapló góða veðrið, sleikti sólina og keypti í leiðinni ís til að sleikja. Valur var ánægður með ísinn og vildi alls enga hjálp, einkum ekki þegar foreldrar hans reyndu að draga úr mesta subbuskapnum. Valur vildi líka finna kisu og voffa og því var leitað um allt kerfi að slíkum skepnum. Svo vildi Valur kaupa kisu og voffa. Kannski maður fjárfesti í slíku, ég veit að móðir mín yrði sérlega ánægð ef ég næði mér í hund.


Fjölgar nú skoðendum

Enn bætist í hóp þeirra sem skoða íbúðina góðu á Kaplaskjólsveginum, mér telst nú til að 8 eða 9 hafi komið að skoða. Eitt parið hefur skoðað tvisvar.

Fólk sem skoðar sömu íbúðina aftur nefnist væntanlega endurskoðendur.


Kominn heim

Þá eru sæludagar sumarfrísins á enda í bili. Fjölskyldan sneri heim í gær eftir 5 daga reisu til suðurhluta Vestfjarða. En hvað skyldi nú hafa verið brallað?

Miðvikudagur: Um klukkan 17 var lagt af stað til Stykkishólms hvar snætt var á veitingahúsinu Fimm fiskum. Mæli með skötuselnum, frábær matur. Sunna fékk sér grillaðan kola sem einnig var hnossgæti hið mesta. Valur át bara brauð og smjör og varðist öllum atlögum foreldranna sem reyndu að bjóða honum súpu, samloku og franskar.

Fimmtudagur: Eftir góða nótt í Arnarbælinu við Víkurgötu, sumarhúsi tengdaforeldra minna, var haldið niður á höfn. Breiðafjarðaferjan Baldur, góðan dag. Þetta var fyrsta ferð mín með því skipi sem er hinn vænsti dallur. Valur var líka ánægður með skipið, þar var hægt að horfa á Samma brunavörð. Einnig var lítill drengur mjög hrifinn af stóra pollinum (sem í daglegu tali kallast Breiðafjörður)

Eftir notalega siglingu yfir fjörðinn breiða var keyrt um Barðastrandasýsluna þar sem ökumaðurinn heillaðist af umfangsmikilli nautgriparækt en slíkt er megineinkenni fallegra sveita. Kindur eru fyrir labbakúta, KÝR eru málið. Sunna var líka agndofa yfir beljunum en Valur var sofandi. Veðrið lék við okkur, sól skein í heiði og hvergi ský að sjá.

Við skoðuðum tvö tjaldstæði þennan dag. Á Patreksfirði er einmannalegt og dapurt tjaldstæði en á Tálknafirði er draumaaðstaða í alla staði. Að auki er Tálknafjörður mun fallegri bær en Patreksfjörður. Er einhver lesandi frá Patreksfirði? Ef svo er þá verður bara að hafa það, Patró er ljótur bær, Tálknó er æði.

Eitt af markmiðum ferðarinnar var að fylgjast með kraftakeppninni Vestfjarðavíkingnum 2007 og það gerðum við svo sannarlega í rjómablíðu alla dagana. Kraftakallar eru kúl, Valur var sammála okkur um það, "deku gallani" voru honum ofarlega í huga einkum þegar þeir voru að "toa takto" en sá sem dreginn var mynnti Val einkum á Trausta nokkurn úr vinsælum barnaþáttum.  Keppnin um víkinginn var nokkuð skemmtileg að þessu sinni en Benedikt Magnússon bar sigur úr býtum. Sá er hrikalega öflugur en gaman hefði verið ef Magnús Ver hefði getað klárað keppnina, sá gamli virkaði helvíti öflugur.

Þetta er nóg í bili, ferðasagan kemur áfram í bútum næstu daga.


Sól skín í heiði

Það ótrúlega virðist hafa gerst, það er sumar í Reykjavík. Skil eiginlega ekkert í þessu, kannski er það dæmigert að á morgun ætla ég með familíuna út úr bænum, eflaust verður rjómablíða í borginni allan tímann sem við erum að heiman.

Enn kemur fólk að skoða höllina á Kaplaskjólsveginum. Fólk virðist samt almennt gleyma næsta skrefi í húsnæðisleit sem er að gera mér tilboð upp á tugi milljóna.

Sunna segir að ég sé feitur og eigi að fara út að hlaupa. Þá er víst ekki um annað að ræða en að skella sér út....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband